Kvennaráðgjöfin

  • flower
  • flower2
  • flower3

Búseta og atvinnuleyfi

Ég er EES borgari, þarf ég að sækja um búsetuleyfi til að fá rétt til ótímabundinnar dvalar?

EES- eða EFTA-útlendingur, sem dvalið hefur löglega hér á landi samfellt í fimm ár á rétt til ótímabundinnar dvalar hér á landi. Sama gildir um aðstandendur hans sem hafa dvalið löglega með honum hér á landi í fimm ár.

Ég þekki einstakling sem fékk leyfi á grundvelli falsaðra gagna. Hver er réttarstaða hans ef það kemst upp?

Ef útlendingur frá ríki utan EES hefur fengið leyfi á grundvelli rangra upplýsinga eða þess að leynt var atvikum sem verulega þýðingu gátu haft við útgáfu leyfis, verður réttarstaða hans eftir að leyfið hefur verið afturkallað, sú sama og ef hann hefði aldrei fengið útgefið leyfi.

Hafa skilyrði fyrir búsetuleyfi breyst?

Já. Nú er meginreglan sú að það má veita útlendingi búsetuleyfi hafi hann dvalið hér á landi samfellt síðustu fjögur ár samkvæmt dvalarleyfi sem getur verið grundvöllur búsetuleyfis. Áður gátu t.d. þeir sem höfðu fengið dvalarleyfi vegna fjölskyldusameiningar sótt um búsetuleyfi eftir 3 ár.

Ég lenti í fjárhagsörðugleikum vegna veikinda og þurfti aðstoð frá Félagsmálayfirvöldum. Fæ ég ekki leyfið mitt endurnýjað?

Þegar dvalarleyfi eru endurnýjuð má, ef sérstaklega stendur á, víkja frá skilyrði um trygga framfærslu hafi framfærsla verið ótrygg í stuttan tíma vegna atvinnuleysis, slyss eða veikinda og ríkar sanngirnisástæður mæla með því.

Maðurinn minn beitir mig ofbeldi. Ég er ekki með búsetuleyfi. Þarf ég að fara úr landi ef ég skil við hann?

Í lögunum er að finna mikilvægt nýmæli þess efnis að ef hjúskap, staðfestri samvist eða sambúð er slitið vegna þess að útlendingur eða barn hans hefur orðið fyrir misnotkun eða ofbeldi í sambandinu má, þegar sérstaklega stendur á og ríkar sanngirnisástæður mæla með, endurnýja aðstandendaleyfi þrátt fyrir breyttar forsendur dvalar hér á landi, ef grunnskilyrði fyrir dvalarleyfi eru uppfyllt. Er þá m.a. litið til lengdar hjúskapar, staðfestrar samvistar eða sambúðar og tengsla útlendings við landið.

Ég er með c-leyfi, get ég fengið því framlengt? Fæ ég þá leyfi sem skapar grundvöll fyrir búsetuleyfi?

Dvalarleyfi og búsetuleyfi sem veitt hafa verið fyrir gildistöku laganna halda gildi sínu. Þeir sem fengið hafa útgefið dvalarleyfi vegna atvinnuþátttöku án takmarkana fyrir gildistöku laganna geta óskað endurnýjunar á leyfum sínum þrátt fyrir að skilyrðið um skort á vinnuafli sé ekki uppfyllt enda fullnægi þeir öðrum skilyrðum fyrir endurnýjun slíks leyfis.

Ég er að verða 18 ára og er ekki með búsetuleyfi. Verð ég ekki að hætta í skólanum og fara að vinna til að sýna framfærslu?

Nei, þú mátt halda áfram í skólanum. Þú þarft hins vegar að vera í fullu námi og sýna eðlilega námsframvindu. Það þýðir að þú ljúkir alla vega 75% námsefnis á hverri önn/hverjum vetri. Ef þú býrð hjá foreldrum þínum þá nægir yfirlýsing frá þeim um framfærslu. Þú getur jafnframt fengið leyfi sem veitir þér rétt til að vinna með skólanum.

Ég er frá ríki utan EES en konan mín er frá Hollandi. Þarf ég atvinnuleyfi?

Aðstandandi (t.d. maki) ríkisborgara EES-ríkis eða EFTA-ríkis sem dvelur löglega hér á landi á rétt til að ráða sig til starfa eða að starfa sem sjálfstætt starfandi einstaklingur á íslenskum vinnumarkaði óháð þjóðerni. Þú getur því starfað (unnið) hér á landi án atvinnuleyfis.

Er ekki nóg fyrir mig að fá kennitölu og skattkort? Get ég þá ekki farið að vinna?

Nei það er ekki nóg. Ef þú ert frá landi utan EES-svæðisins þá þarftu bæði dvalar- og atvinnuleyfi á Íslandi. Vinnuveitandi þinn sækir um atvinnuleyfið og þú um dvalarleyfið. Þú mátt ekki vera á landinu þegar leyfin eru gefin út í fyrsta sinn.

Ef ég skil við manninn minn áður en ég fæ búsetuleyfi, má ég þá ekki vera lengur á Íslandi?

Jú, þú mátt vera lengur á Íslandi. Hvað þú þarft að gera til að vera áfram á landinu fer eftir því hvaðan þú ert. Ef þú ert ekki EES-borgari og hefur verið gift Íslendingi, þá þarftu að fá þér vinnu, eða, ef þú hefur vinnu, að biðja vinnuveitanda þinn að sækja um atvinnuleyfi fyrir þig og sækja um nýtt dvalarleyfi.
Forsíða Spurt og svarað Búsetu og atvinnuleyfi