Kvennaráðgjöfin

 • flower
 • flower2
 • flower3

Ríkisborgararéttur

Nýlega voru gerðar breytingar á lögum um ríkisborgararétt. Eftir sem áður er meginreglan sú, að Alþingi veitir ríkisborgararétt með lögum. Hins vegar hefur dómsmálaráðherra heimild til að veita ríkisborgararétt og þurfa  umsækjendur þá án nokkurs vafa að uppfylla ákveðin lagaskilyrði svo dómsmálaráðuneytið geti veitt þeim ríkisborgararétt.

Dómsmálaráðherra má þó alltaf vísa umsókn um ríkisborgararétt til ákvörðunar Alþingis og sömuleiðis getur umsækjandi um ríkisborgararétt, sem ekki uppfyllir lagaskilyrðin, sent rökstudda beiðni til dómsmálaráðuneytis, um að umsókn hans verði send Alþingi til umfjöllunar. Hér á eftir fylgir yfirlit yfir flest þeirra skilyrða sem umsækjendur um íslenskan ríkisborgararétt þurfa að uppfylla svo dómsmálaráðuneytið geti veitt þeim ríkisborgararétt.
 

 

 1. Umsækjandi um ríkisborgararétt að hafa búið hér í sjö ár, en bara 4 ár sé hann ríkisborgari einhvers hinna Norðurlandanna. Þeir sem eru giftir eða í staðfestri samvist með íslenskum ríkisborgara geta sótt um ríkisborgararétt eftir 3 ára dvöl hér á landi, ef íslenski makinn hefur haft ríkisborgararétt í 5 ár. Þeir sem eru í skráðri sambúð með íslenskum ríkisborgara og hafa búið saman í 5 ár geta sótt um ríkisborgararétt, hafi íslenski makinn haft ríkisborgararétt í 5 ár. Flóttamenn og þeir sem fengið hafa dvalarleyfi af mannúðarástæðum geta sótt um ríkisborgararétt eftir 5 ára dvöl hér á landi. Loks geta þeir sem eiga íslenskan ríkisborgara að öðru foreldri fengið ríkisborgararétt eftir að hafa búið á Íslandi í tvö ár, ef foreldrið hefur verið ríkisborgari ekki skemur en 5 ár.

  Framangreind skilyrði miðast við fasta búsetu og lögheimili og samfellda, löglega dvöl hér á landi síðustu ár áður en umsókn er lögð fram. Það má veita undanþágu ef dvöl umsækjanda hér hefur verið rofin allt að einu ári vegna tímabundinnar atvinnu eða af óviðráðanlegum ástæðum, til dæmis vegna veikinda nákomins ættingja, en þó allt að þremur árum vegna náms erlendis. Sá tími, sem umsækjandi hefur átt hér lögheimili og dvöl, verður þó að vera að minnsta kosti jafnlangur þeim tíma sem hann verður að uppfylla samkvæmt áðurnefndum reglum.

 

 1. Umsækjandi um ríkisborgararétt þarf nú að uppfylla skilyrði þess að fá búsetuleyfi útgefið af Útlendingastofnun og jafnframt hafa slíkt leyfi þegar sótt er um íslenskan ríkisborgararétt. Það þýðir að nú er ekki mögulegt að fá ríkisborgararétt nema hafa fengið búsetuleyfi fyrst. Eina undantekningin er varðandi þá sem ekki þurfa að hafa dvalarleyfi á Íslandi.

  Hingað til hefur ekki verið eins brýnt fyrir EES borgara að afla sér búsetuleyfis eins og þá sem koma frá löndum utan EES, þar sem þeir þurfa ekki atvinnuleyfi. Ef þeir vilja fá íslenskan ríkisborgararétt er núna nauðsynlegt fyrir þá að fá búsetuleyfi.
   
 2. Umsækjandi um ríkisborgararétt þarf að sanna með fullnægjandi hætti hver hann sé. Þegar þessu skilyrði er beitt skal taka tillit til flóttamanna og annarra þeirra sem ómögulegt er að sanni deili á sér með hefðbundnum hætti. Til greina getur t.d. komið að fingraför og myndir séu notaðar til þessa, þ.e. þegar ekki er hægt að leggja fram vegabréf, fæðingarvottorð eða önnur skilríki.
   
 3. Umsækjandi um ríkisborgararétt þarf að hafa staðist próf í íslensku samkvæmt kröfum sem dómsmálaráðherra setur í reglugerð, en þar verða líka taldar upp undanþágur frá þessu skilyrði fyrir þá sem telja verður ósanngjarnt að gera þessar kröfur til. Þetta skilyrði tekur gildi 1. janúar 2009.
   
 4. Umsækjandi skal vera starfhæfur og vel kynntur og leggja m.a. fram því til staðfestingar álit tveggja valinkunnra íslenskra ríkisborgara.
   
 5. Ekki má hafa verið gert árangurslaust fjárnám hjá umsækjanda síðustu þrjú ár, bú hans tekið til gjaldþrotaskipta eða hann í vanskilum með skattgreiðslur.
   
 6. Umsækjandi þarf að geta framfleytt sér hérlendis og má ekki hafa þegið framfærslustyrk frá sveitarfélagi sl. þrjú ár. Umsækjanda er skylt að sýna fram á að hann hafi framfært sig með löglegum hætti hér á landi og má dómsmálaráðuneytið afla skattframtala og gagna frá skattyfirvöldum því til staðfestingar.
   
 7. Umsækjandi má ekki, hérlendis eða erlendis, hafa sætt sektum eða fangelsisrefsingu eða eiga ólokið máli í refsivörslukerfinu þar sem hann er grunaður eða sakaður um refsiverða háttsemi samkvæmt íslenskum lögum. Það má víkja frá þessu skilyrði þegar liðinn er ákveðinn tími frá því að brotið var framið ef ekki er um að ræða endurtekin brot.

 

Veita má íslenskan ríkisborgararétt þegar liðið er eitt ár frá því að brot var framið sem sætti sekt lægri en 50.000 kr., eftir 3 ár  ef brotið sætti sekt að fjárhæð 50.000 kr. eða hærri. Þá má veita ríkisborgararétt þegar liðin eru sex ár frá því að fangelsisrefsing í allt að 60 daga var afplánuð, eftir átta ár, ef refsingin var allt að sex mánuðir, eftir tíu ár ef refsingin var allt að eitt ár og eftir 14 ár ef refsingin var lengri en eitt ár. Sama gildir um öryggisgæslu. Þegar gæsluvarðhald telst hluti refsingar, eða hún er skilorðsbundin að öllu leyti, reiknast tíminn frá því að viðkomandi var látinn laus úr gæsluvarðhaldi eða skilorðsdómur kveðinn upp. Veita má íslenskan ríkisborgararétt eftir þrjú ár frá því að ákvörðun um skilorðsbundna ákærufrestun var tilkynnt.

Ef ákvörðun um refsingu hefur verið frestað skilorðsbundið, þá skal eftir atvikum miða við þau skilyrði sem talin eru upp hér að framan.