Kvennaráðgjöfin

  • flower
  • flower2
  • flower3

Sjúkra- og tryggingamál

Vinnuslys og slys utan vinnu

Ef einstaklingur slasast í vinnu fær hann fyrst greidd laun frá atvinnurekanda í samræmi við þann slysarétt sem hann á samkvæmt kjarasamningi. Því næst tekur sjúkrasjóður stéttarfélagsins við (ef ekki koma greiðslur annars staðar frá, t.d. frá tryggingafélagi vinnuveitenda eða ef einstaklingurinn hefur lent í bílslysi) og greiðir einstaklingnum dagpeninga í að minnsta kosti 120 daga og nema bæturnar 80% af þeim launum sem iðgjald hefur verið greitt af síðustu 6mánuði fyrir slysið.


Það tekur 6 mánuði að ávinna sér full réttindi úr sjóðnum. Ef atvinnurekandi hefur ekki greitt iðgjöld í sjúkrasjóð fyrir viðkomandi starfsmann fær hann samt greiðslur úr sjóðnum ef hann getur sannað að iðgjöld til stéttarfélagsins hafi verið dregin af launum sl. sex mánuði, samkvæmt launaseðlum sem gefnir eru út reglulega.

Einstaklingur sem slasast í vinnu (eða til og frá vinnu) á oftast rétt á bótum fyrir varanlega örorku, greiðslu dagvinnulauna, sjúkrakostnaðar o.þ.h. úr slysatryggingu atvinnurekanda, nema hann hafi valdið slysinu af ásetningi eða stórfelldu gáleysi. Örorka er ekki metin fyrr en stöðugleikapunkti er náð en það er þegar ljóst þykir að einstaklingurinn muni ekki geta náð meiri bata eftir slysið. Bætur fyrir varanlega örorku taka mið af örorkustigi, árslaunum síðustu þrjú almanaksár fyrir þann dag er tjón varð og töflu sem tekur mið af aldri hins slasaða. Til dæmis fengi 30 ára einstaklingur sem metin hefur verið 10% örorka og hefur haft 2.000.000 kr. að meðaltali í árslaun síðustu þrjú ár áður en tjónið varð, 2.626.600 kr. í skaðabætur vegna varanlegrar örorku. Til viðbótar kæmu þjáningarbætur og bætur vegna varanlegs miska. Nánar á www.efling.is, www.island.is, www.tm.is, www.vis.is, www.sjova.is o.fl.